Minningarsjóður Ragga Margeirs styrkir knattspyrnufólk og aðstandendur þeirra sem eiga um sárt að binda. Sjóðurinn varð til árið 2003 útfrá minningarmóti Ragga sem haldið var í Reykjaneshöll af vinum hans (Old Boys) síðan þá hefur mótið farið fram nánast árlega. Allur ágóði sem hefur safnast af þessum mótum hefur síðan verið notaður til að standa við bakið á knattspyrnuiðkendum og fjölskyldum þeirra.
Stjórn sjóðsins skipa þeir Haraldur Axel Einarsson formaður, Sigurður Markús Grétarsson gjaldkeri, Magnús Ólafsson meðstjórnandi og Ragnar Aron Ragnarsson meðstjórnandi.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins
Allur sá peningur sem safnast fer í að styrkja góð málefni. Forsvarsmenn sjóðsins gefa sína vinnu sem og allir þeir sem að starfseminni koma.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning sjóðsins.
0133-26-005194, kt. 701221-1250
Allur sá peningur sem safnast fer í að styrkja góð málefni. Forsvarsmenn sjóðsins gefa sína vinnu sem og allir þeir sem að starfseminni koma.
Ragnar Ingi Margeirsson (f.d. 14.08.1962 – d. 10.02.2002), einn af betri knattspyrnumönnum sem Ísland hefur alið af sér, átti farsælan feril bæði hérlendis sem og í atvinnumennsku erlendis sem lauk árið 1996. Raggi lék með Keflavík, KR og Fram hér á landi. Ragnar lést árið 2002 ungur að árum þá aðeins 39 ára gamall. Hvar sem Ragnar kom við þá skildi hann eftir sig gott orð, hann var einn af þessum einstöku, hann var afburðar knattspyrnumaður.
Ragnar var einn af þeim leikmönnum sem fjallað var um í þættinum ,,Goðsagnir efstu deildar“. Það undirstrikar það hversu öflugur knattspyrnumaður Ragnar var. ,,Það var erfitt að eiga við hann þegar hann var kominn með boltann í lappirnar“ sagði Guðni Bergsson um Ragnar í þættinum sem kom út árið 2015.
Ferill Ragga Margeirs:
Knattspyrnuferill Ragnars hófst í Keflavík og ungur að árum sást að hæfileikar hans voru til staðar. Ragnar byrjaði um 17 ára aldur að spila með Keflavík og erlend lið voru fljót að taka eftir honum. Árið 1980 þegar Ragnar var aðeins 18 ára gamall hélt út í atvinnumennskuna er hann samdi við FC Homburg í Þýskalandi en þar dvaldi Ragnar í eitt ár áður en hann gekk í raðir AA Gent, í Belgíu. Ragnar stoppaði stutt við í Belgíu og snéri hann aftur heim til Keflavíkur árið 1982.
Viðvera Ragga á klakanum varði þó ekki löng þar sem erlend félög vissu af hæfileikum hans og sama ár samdi Ragnar við Cercle Brugge.
,,Hann var alltaf í fremstu röð á Íslandi, hann var sá leikmaður sem mér þótti best að spila með,“ sagði Gunnar Oddsson um Ragnar í Goðsögnum efstu deildar.
Dvöl Ragga í Belgíu varði í eitt ár en alltaf kölluðu heimahagarnir á hann, Ragnar snéri aftur til Keflavíkur árið 1983 og nú í tvö ár. Árið 1985 gekk Ragnar í raðir Thor Waterschei, í Belgíu. Hann hafði gefið af sér gott orð í Belgíu og félög þar höfðu alltaf mikinn áhuga á starfskröftum Ragga, hann dvaldi hjá Thor Waterschei í tvö ár.
Það voru ekki allir Keflvíkingar sáttir með ákvörðun Ragnar árið 1987 að ganga í raðir Fram. Hann hafði alla tíð spilað með Keflavík á Íslandi. „Nei, ég á ekki von á því að mér verði illa tekið í Keflavík í kvöld. Það er ekkert hatur á milli mín og leikmanna Keflavíkurliðsins. Ég á von á því að þetta verði skemmtilegur leikur og það er víst að við fáum mikla mótspyrnu í kvöld“ sagði Ragnar árið 1987 þegar hann var að fara að mæta á sinn gamla heimavöll.
Ragnar dvaldi hjá Fram í eitt ár áður en hann samdi við 1860 Munchen þar sem hann lék með Guðna Bergssyni. Hann kom aftur heim til Íslands árið 1988 og þá gekk hann aftur í raðir Keflavíkur. Árið 1989 lauk svo atvinnumannaferli Ragnars er hann lék með Sturm Graz í Austurríki.
Ragnar kom heim árið 1990 og gekk í raðir KR, þar átti hann þrjú góð ár. Hann lauk svo ferli sínum sem knattspyrnumaður árið 1996 í heimahögunum með Keflavík.
Farsæll landsliðsferill:
Ragnar lék 46 A-landsleiki á ferli sínum og skoraði í þeim fimm mörk, það er skemmtileg saga af Ragnari úr einni ferðinni sem Fótbolti.net sagði frá á sínum tíma ,,Ragnar Margeirsson fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu var eitt sinn staddur erlendis með íslenska landsliðinu fyrir nokkrum árum. Í einni fríhöfninni sá hann hið vinsæla spurningaspil Trivial Pursuit og þar sem spilið var nánast gefins skellti Raggi sér á það. Þegar hefja átti spurningaleikinn vandaðist málið þó heldur betur. Spurningarnar voru nefnilega allar á… búlgörsku.“
Ragnar Margeirsson lék fyrir A-landsliðið og öll yngri landslið Íslands og skoraði fyrir þau öll.
Fallegar minningar:
Gunnar Oddsson sem lék lengi vel með Ragnari skrifaði fallega minningargrein um Ragnar eftir andlát hans árið 2002. ,,Ég á margar góðar minningar um þig, Raggi, sem ég mun geyma um ókomin ár. Í lífsins ólgusjó gengur á ýmsu, það er margt sem ber að varast og ekki er allt sem sýnist. Óhætt er að segja að fótboltinn hafi verið þinn heimavöllur, þar kunnir þú vel við þig, enda er mér til efs að jafn hæfileikaríkur piltur og þú varst eigi eftir að koma fram í boltanum. Þú þurftir að hætta í boltanum vegna meiðsla og við það myndaðist mikið tómarúm í þínu lífi. Baráttan við Bakkus varð þér erfið, þú gerðir tilraunir til að berjast við hann, en hann hafði alltaf betur. Eftir eina slíka baráttu sýndir þú mér hvaða mann þú hafðir að geyma, ég hafði misst bróður minn af slysförum og átti um sárt að binda. Þú hjálpaðir mér mikið þá, elsku vinur, en verst þykir mér að hafa aldrei sagt þér frá því.“
Guðni Bergsson hafði verið samherji Ragnar lengi og kvaddi góðan vin. ,,Raggi var einn af bestu knattspyrnumönnum landsins á þessum árum. Hann hafði ómælda hæfileika og var satt best að segja illviðráðanlegur þegar hann var í ham. Hann átti glæstan feril með landsliðinu, ÍBK, Fram, KR, Cerle Brugge og Waterschei í Belgíu. Fyrir mér á þessari stundu var Raggi þó fyrst og fremst góður og einstaklega hlýr félagi. Brosið var aldrei langt undan og það var ekkert smábros þegar best lét. Öllum líkaði vel við Ragga, það var ekki hægt annað. Við félagarnir í landsliðinu munum minnast þín af hlýhug,“ skrifaði Guðni á þessum erfiða tíma.
,,Ég vildi að ég hefði getað hjálpað þér og stutt þig í baráttunni sem þú háðir í seinni tíð, þú vonandi fyrirgefur það, Raggi minn. Nú er sorg í huga okkar allra en ég mun minnast þín sem frábærs knattspyrnumanns og góðs félaga.“
Haukur Ingi á frænda sínum mikið að þakka:
Haukur Ingi Guðnason var frændi Ragnars en þeir léku saman með Keflavík, þrátt fyrir að 16 ár væru á milli þeirra. ,,Það hafa fáir haft jafn mikil áhrif á mig sem knattspyrnumann og þú, Raggi minn. Ég var ungur þegar ég heyrði fyrst Margeir afa þinn stoltan segja hetjusögur af knattspyrnukappanum Ragga frænda. Mig langaði að feta í þín fótspor, ég vildi verða framherji líkt og þú. Einnig vildi ég alltaf leika í búningi númer 9 eins og þú, Raggi,“ skrifaði Haukur árið 2002.
,,Ég horfði stundum aðdáunaraugum á þig leika þér með Stebba í fótbolta á Háholtinu. Þó það hafi verið 16 ár á milli okkar þá dreymdi mig á þessum tíma um að fá að leika einhvern tímann við hlið þér á vellinum. Þessi gamli draumur varð að veruleika árið ’96 þegar við spiluðum saman með meistaraflokki Keflavíkur. Þetta ár er mér ógleymanlegt. Þú varst alltaf tilbúinn að leiðbeina og kenna mér. Ég lærði mikið af þér. Hjálpsemin uppmáluð, þannig varstu.“
,,Fyrir utan að vera knattspyrnulegum hæfileikum gæddur var Ragnar afburða ljúfur og góður maður. Kannski of góður, því hann lét stundum annarra vellíðan ganga fyrir sinni eigin.“
Minning Ragnars lifir og mun gera um ókomna tíð.